Áhættuþættir

Fjárfesting í kauphallarsjóðum

Kauphallarsjóður (e. Exchange Traded Fund, ETF) er sjóður um sameiginlega fjárfestingu sem skráður er í kauphöll og þar fara viðskipti með hlutdeildarskírteini að mestu leyti fram. Frumútgáfa fer fram hjá útgefanda með skiptum á verðbréfum og hlutdeildarskírteinum.

Helstu áhættuþættir kauphallarsjóða sem fjárfesta í hlutabréfum

Kauphallarsjóður Landsbréfa sem fjárfestir í hlutabréfum er verðbréfasjóður sem starfar samkvæmt lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði og lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Sjóðurinn er vísitölusjóður og stýrt með óvirkum hætti, þar sem fjárfest er eingöngu í þeim hlutabréfum sem mynda vísitöluna OMXI10CAP, í sömu hlutföllum og hún er samsett á hverjum tíma.

Hlutabréfasjóður er sjóður sem veitir viðtöku fé til sameiginlegrar fjárfestingar í hlutabréfum einstakra fyrirtækja. Tilgangur sjóðsins er að ávaxta fé sjóðfélaga og dreifa áhættu með kaupum á fjármálagerningum útgefnum af mörgum aðilum. Fjárfestar geta keypt hlutdeildarskírteini sem staðfestingu á eignarhlut sínum í sjóðnum og átt þannig hlutfallslega kröfu á þau hlutabréf og aðrar eignir sem sjóðurinn á. Það má því segja að með kaupum í hlutabréfasjóði séu fjárfestar að kaupa hlut í mörgum félögum í gegnum sjóðinn. Hlutabréf eru í eðli sínu mjög áhættusöm fjárfesting og afkoma þeirra félaga sem sjóðurinn á hlutabréf í hefur bein áhrif á gengi sjóðsins. Sveiflur í gengi hlutabréfasjóða geta því verið töluverðar vegna verðbreytinga á þeim hlutabréfum sem sjóðurinn fjárfestir í og vegna sveiflna í gengi gjaldmiðla.

Hlutabréfasjóður fjárfestir fyrst og fremst í hlutabréfum á markaði samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu og fær greiddan af þeim arð eftir atvikum. Ávöxtun sjóðsins á hverjum tíma ræðst af arðgreiðslum og af verðbreytingum á eignum sjóðsins. Styrkur hvers sjóðs ræðst af undirliggjandi eignum hans, fjárhagslegum styrk útgefenda þeirra verðbréfa sem sjóðurinn hefur fjárfest í og fjölmörgum öðrum þáttum sem geta haft áhrif á verð þeirra.

Fjárfesting í hlutabréfasjóðum felur ætíð í sér áhættu. Fjárfesting í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða er þó að jafnaði öruggari en þegar keyptir eru einstakir fjármálagerningar, þar sem hver sjóður dreifir áhættu fjárfesta með kaupum í fleiri en einum flokki fjármálagerninga. Staða og afdrif þeirra fjármálafyrirtækja sem reka sjóði hafa ekki bein áhrif á virði sjóðanna þar sem efnahagur þeirra er aðskilinn efnahag viðkomandi fjármálafyrirtækis.

Hafa verður í huga að gengi sjóða getur bæði hækkað og lækkað og fjárfestar kunna að fá minna til baka en upphaflega var fjárfest fyrir. Nauðsynlegt er að fjárfestar kynni sér vel þá áhættu sem fólgin er í því að fjárfesta í hlutabréfasjóðum í lykilupplýsingum og útboðslýsingum sjóða áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu. Hér að neðan er gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum sem hafa þarf í huga áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu. Upptalningin er þó ekki tæmandi fyrir þá þætti sem geta haft áhrif á gengi hlutabréfasjóða.

  • Markaðsáhætta fylgir öllum fjármálagerningum og er ekki hægt að eyða með dreifðu eignasafni. Gengi hlutabréfa sem fjárfest er í getur sveiflast með ófyrirsjáanlegum hætti bæði til hækkunar og lækkunar og þannig haft áhrif á ávöxtun sjóðsins. Undir markaðsáhættu fellur til dæmis áhætta á verðbreytingum á hlutabréfum og gjaldmiðla-/gengisáhætta.
  • Gjaldmiðlaáhætta getur verið til staðar í hlutabréfasjóðum. Mörg þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í eru með stóran hluta sjóðsstreymis síns í erlendum gjaldmiðli. Verðgildi gjaldmiðils getur breyst í hlutfalli við aðra gjaldmiðla. Meðal þátta sem hafa áhrif á verðgildi gjaldmiðla eru framboð og eftirspurn eftir þeim, viðskiptajöfnuður, vaxtastig, fjárfestingarkostir og arðsvon til langs tíma sem og stjórnmálaþróun. Sveiflur í gengi gjaldmiðla geta því haft áhrif á ávöxtun sjóðsins og gengi hlutabréfa undirliggjandi fyrirtækja og þannig leitt til hækkunar eða lækkunar á gengi sjóða.
  • Áhætta tengd smæð markaðar eða eignatengsla útgefanda verðbréfa getur verið til staðar í hlutabréfasjóðum. Íslenskur verðbréfamarkaður er smár í sniðum og því fylgir að kaupendur og seljendur einstakra verðbréfa eru oft fáir. Af þeim sökum getur verðmyndun á markaði verið óvirkari en gerist á stærri mörkuðum. Einnig geta eignatengsl verið á milli útgefenda verðbréfa sem getur leitt til þess að greiðslufall einstakra útgefenda hafa víðtækari áhrif en annars myndi verða.
  • Skuldaraáhætta (greiðslufallsáhætta) er til staðar í hlutabréfasjóðum. Eignir hlutabréfasjóða geta tapast ef útgefendur verðbréfa sem sjóðurinn á verða gjaldþrota eða skuldari stendur að öðru leyti ekki við skuldbindingar sínar.
  • Seljanleikaáhætta/Lausafjáráhætta er til staðar í hlutabréfasjóðum þar sem sú staða gæti komið upp að eign seljist ekki tímanlega á ásættanlegu verði ef þess er þörf, til dæmis ef miklar innlausnir verða í sjóði. Lausafjáráhætta er því sú áhætta að of lítið laust fé sé til í sjóði til að standa undir greiðsluskuldbindingum á hverjum tíma.
  • Uppgjörsáhætta er til staðar í hlutabréfasjóðum ef útgefandi/mótaðili greiðir ekki eða afhendir ekki verðbréfaeign á réttum tíma.
  • Vörsluáhætta er til staðar í hlutabréfasjóðum þar sem eignir í vörslu geta tapast vegna gjaldþrots, vanrækslu eða sviksamlegra athafna af hálfu vörsluaðila.