Blandaðir sjóðir eru sjóðir sem veita viðtöku fé til sameiginlegrar fjárfestingar. Blandaðir sjóðir fjárfesta samkvæmt fjárfestingarstefnu sem innihaldið getur m.a. ríkiskuldabréf, skuldabréf sveitarfélaga, banka og fyrirtækja. Einnig er oftast um að ræða fjárfestingar í hlutabréfum. Blandaðir sjóðir fjárfesta einnig í sjóðum sem fjárfesta í áðurnefndum eignaflokkum.
Virði sjóðanna á hverjum tíma ræðst einnig af verðbreytingum á bréfunum þegar þau ganga kaupum og sölum á markaði.
Viðskiptavinir sem eiga hlut í sjóði eiga hlutfallslega kröfu á þær eignir sem sjóðurinn á. Tilgangur sjóðanna er að ávaxta fé sjóðfélaga og dreifa áhættu með kaupum á fleiri en einum flokki fjármálagerninga.
Styrkur hvers sjóðs ræðst af undirliggjandi eignum hans, það er fjárhagslegum styrk útgefenda þeirra verðbréfa sem viðkomandi sjóður hefur fjárfest í og eftir atvikum þeim veðum sem einstakir útgefendur hafa lagt fram til tryggingar skuldum sínum. Staða og afdrif þeirra fjármálafyrirtækja sem reka sjóði hafa því ekki með beinum hætti áhrif á virði sjóðanna þar sem efnahagur þeirra er aðskilinn efnahag viðkomandi fjármálafyrirtækis.
Blandaðir sjóðir Landsbréfa eru verðbréfasjóðir eða fjárfestingarsjóðir sem starfa samkvæmt lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, og lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Þeir hafa hver um sig mismunandi fjárfestingarstefnu.
Fjárfesting í blönduðum sjóðum felur ætíð í sér einhverja áhættu. Fjárfesting í hlutdeildarskírteinum sjóða er þó að jafnaði öruggari en þegar keyptir eru einstakir fjármálagerningar, þar sem hver sjóður dreifir áhættu fjárfesta með kaupum í fleiri en einum flokki fjármálagerninga.
Hafa verður í huga að gengi sjóða getur bæði hækkað og lækkað og fjárfestar kunna að fá minna til baka en upphaflega var fjárfest fyrir. Nauðsynlegt er að fjárfestar kynni sér vel þá áhættu sem fólgin er í því að fjárfesta í blönduðum sjóðum og útboðslýsingar sjóðanna áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu. Hér að neðan er gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum sem hafa þarf í huga áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu. Upptalningin er þó ekki tæmandi fyrir þá þætti sem geta haft áhrif á gengi blandaðra sjóða.