Siðareglur

Siðasáttmáli Landsbréfa

Siðasáttmáli Landsbréfa byggir á siðareglum félagsins, almennri lýsingu á tilgangi þeirra og kafla um skyldur stjórnenda félagsins við starfsmenn. Siðasáttmálinn öðlast gildi þegar starfsmaður og framkvæmdastjóri Landsbréfa hafa undirritað hann og þar með staðfest sameiginlegan skilning á efni hans og mikilvægi.

Starfsmenn geta tilkynnt grun um brot á siðareglum óhræddir um stöðu sína. Ábending sem borin er fram í góðri trú hefur ekki neikvæða eftirmála fyrir viðkomandi starfsmann jafnvel þó grunur sé ekki á rökum reistur. Heimilt er að koma með nafnlausar ábendingar treysti starfsmenn sér ekki til að koma fram undir nafni. Það má gera með því að senda regluverði bréf með innanhússpósti. Landsbréf skulu sjá til þess að upplýsingum um hvaða starfsmaður upplýsti um misferli sé haldið leyndum.

Tilgangur

Siðareglur Landsbréfa eru grunnviðmið góðra viðskiptahátta og siðferðis starfsmanna Landsbréfa. Viðmiðin gilda um samskipti starfsmanna við viðskiptavini, samstarfsmenn, eftirlitsaðila, hluthafa, samkeppnisaðila og aðra sem eiga hagsmuna að gæta. Siðareglurnar eru einn af hornsteinum stefnu Landsbréfa og jafnframt leiðbeinandi um hvernig bregðast skuli við siðferðilegum álitamálum.

Siðareglurnar eiga við um alla starfsmenn Landsbréfa og einnig verktaka og umboðsmenn sem vinna fyrir félagið eða koma fram fyrir hönd þess. Siðareglur þessar mynda grunn að mannauðsstefnu, starfsreglum og verklagsreglum Landsbréfa.

Siðareglurnar eru skrifaðar frá sjónarhorni starfsmanna og lýsa því hvernig þeir vinna og koma fram. Þetta er gert til að árétta ábyrgð hvers og eins. Á starfsmönnum hvílir sú skylda að lesa siðareglurnar og fylgja þeim. Þó þær séu ekki tæmandi um dagleg störf, ætti hver og einn starfsmaður að temja sér að fylgja bæði bókstafnum og anda reglnanna og framar öllu að beita dómgreind sinni þegar álitaefni vakna. Þegar þörf krefur eiga starfsmenn að nýta þau úrræði sem félagið veitir til að ræða vafaatriði og álitamál.

Stjórnendur Landsbréfa helga sér siðareglurnar og skapa starfsmönnum aðstæður til að fylgja þeim.

Stjórn Landsbréfa hefur skuldbundið sig til að fylgja þessum reglum.

Skyldur stjórnenda

Framkvæmdastjóri og innra eftirlit Landsbréfa leggja höfuðáherslu á mikilvægi siðareglnanna og einnig á ábyrga stjórnarhætti.

Stjórnendur Landsbréfa sýna gott fordæmi og fylgja siðareglunum í hvívetna.

Stjórnendur þróa fyrirtækjamenningu sem gerir starfsmönnum kleift að tileinka sér og fjalla um siðareglurnar, takast á við siðferðileg álitaefni, spyrja spurninga og bera upp áhyggjuefni.

Óheimilt er að refsa starfsmönnum sem tilkynna í góðri trú um ætluð brot annarra.

Stjórnendur Landsbréfa skulu auðvelda starfsmönnum að fylgja eftir lögum og reglum og skulu þeir hafa forgöngu um setningu starfsreglna á vinnustað.

Siðareglur

1. Samfélagið

Við viljum taka þátt í að byggja upp samfélagið og njóta virðingar. Virðingu ávinnum við okkur með athöfnum okkar jafnt innan félagsins sem utan, þar sem við fylgjum leikreglum samfélagsins og temjum okkur heiðarleika, sanngirni, ráðvendni, hófsemd og varfærni.

Við erum staðráðin í að láta óréttmæta viðskiptahætti aldrei viðgangast. Það felur meðal annars í sér að tilkynna um ætluð brot til réttra aðila og taka þátt í innlendum og alþjóðlegum aðgerðum gegn svikum, spillingu, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka- og glæpastarfsemi.

Við öxlum samfélagslega ábyrgð, lærum af öðrum og kynnum eftir atvikum hagsmunaaðilum þau góðu verk sem við vinnum svo þeir geti lært af okkar reynslu.

2. Viðskiptavinurinn

Við hlúum að viðskiptatengslum

Við hlustum á þarfir viðskiptavina og viljum ávinna okkur traust þeirra. Við tökum mark á athugasemdum og ábendingum viðskiptavina, lærum og bregðumst við þeim tafarlaust og á sanngjarnan hátt. Við úrlausn viðfangsefna höfum við hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi og leitum þeirra leiða sem henta þeim best.

Samskipti okkar við viðskiptavini eiga að helgast af heilindum þannig að hagur beggja sé tryggður.

Við bjóðum ekki verðmæti, gjafir eða annað sem túlka má þannig að það sé til þess að hafa áhrif á, laða að eða halda viðskiptum og tryggja óeðlilegan ávinning. Við skiljum að allar gjafir og fyrirgreiðsla frá viðskiptavinum til okkar, starfsmanna félagsins, geta orkað tvímælis. Við þiggjum því ekki gjafir, fyrirgreiðslu eða þjónustu sem haft geta áhrif á dómgreind okkar í starfi. Meðferð gjafa skal ávallt vera í samræmi við reglur Landsbréfa.

3. Vinnustaðurinn

Það er á ábyrgð allra starfsmanna að byggja upp góða liðsheild og starfsanda. Okkur er umhugað um samstarfsfólkið, viðskiptavinina og aðra sem hagsmuna eiga að gæta og við sýnum hvert öðru sanngirni og virðingu. Við erum umburðarlynd, tökum tillit til ólíkra sjónarmiða og leyfum hæfileikum hvers og eins að njóta sín til þess að auðga starf okkar og það samfélag sem við búum í.

4. Hagsmunaárekstrar

Við látum persónulega hagsmuni ekki hafa áhrif á störf okkar fyrir Landsbréf. Við misnotum ekki aðstöðu okkar til þess að afla okkur eða tengdum aðilum ávinnings. Við skiljum að hagsmunaárekstrar geta jafnt komið upp milli viðskiptavina og Landsbréfa, viðskiptavina og starfsmanna, starfsmanna og Landsbréfa og innbyrðis á milli viðskiptavina. Við beitum dómgreind okkar til þess að átta okkur á mögulegum hagsmunárekstrum og að koma í veg fyrir þá og förum í hvívetna eftir reglum Landsbréfa um varnir gegn hagsmunaárekstrum.

5. Fagmennska og heiðarleiki

Við vinnum ætíð störf okkar af fagmennsku og með virðingu fyrir viðskiptavinum, Landsbréfum og öðrum hagsmunaaðilum.

Við sýnum fagmennsku og heiðarleika með því að leita upplýsinga, fylgja lögum, reglum, starfsháttum, siðareglum og öðrum viðmiðum sem eiga við störf okkar hverju sinni.

Við þekkjum og ræðum siðferðileg álitamál sem snerta starf okkar.

Við sýnum fagmennsku og heiðarleika með því að gæta jafnræðis og með því að fjalla um mál viðskiptavina af nærgætni og trúnaði í anda þessara siðareglna.

6. Trúnaður

Við skiljum og virðum mikilvægi gagnsæis á fjármálamarkaði og fylgjum þeim lögum sem gilda um samkeppni og aðgang að upplýsingum. Við erum þó alltaf bundin þagnarskyldu um allt það sem við fáum vitneskju um í starfi sem varðar viðskipti eða einkamál viðskiptavina, nema skylt sé samkvæmt lögum að veita upplýsingar. Þagnarskyldan helst þó látið sé af störfum.

Við hagnýtum okkur ekki upplýsingar um viðskiptavini á annan hátt en þeim hefur verið kynnt, né veitum óviðkomandi aðgang að gögnum sem viðskiptavinir hafa trúað okkur fyrir.

7. Orðspor Landsbréfa

Okkur er ljóst að orðspor Landsbréfa er ein dýrmætasta eign félagsins. Okkur ber að efla það og varðveita til þess að vinna traust viðskiptavina og skapa góðan vinnustað. Það gerum við best með því að virða og fylgja siðareglunum auk þess sem við hlustum á, lærum af og þjónum viðskiptavinum.

Prentvæn útgáfa