03.03.2021 13:21

Landsbréf og Brunnur Ventures GP hafa lokið fjármögnun á 8,3 milljarða vísisjóði

Landsbréf hafa í samstarfi við Brunnur Ventures GP lokið fjármögnun á 8,3 milljarða vísisjóði (e. venture capital fund) sem ber nafnið Brunnur vaxtarsjóður II slhf. Sjóðurinn er fjármagnaður af tíu lífeyrissjóðum og Landsbankanum. Landsbréf munu annast rekstur sjóðsins í samstarfi við ábyrgðaraðilann Brunn Ventures GP.

Markmið hins nýja sjóðs er að fjárfesta að lágmarki í 12 sprotafyrirtækjum en vænta má að um 20 félög verði í eignasafninu. Fjárfest verður fyrir 150 til 350 milljónir króna í hverju félagi. Stjórn hins nýja sjóðs skipa Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Soffía Thedóra Tryggvadóttir og Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson. Framkvæmdastjóri og sjóðstjóri er Ólafur Jóhannsson hjá Landsbréfum og fjárfestingastjórar eru Árni Blöndal, Sigurður Arnljótsson, Margrét Ormslev og Kjartan Ólafsson hjá Brunni Ventures GP.

Fjárfestingastefna sjóðsins veitir talsvert svigrúm til fjárfestinga en tekið er mið af eftirfarandi ráðandi þáttum; að fyrirtækið sem fjárfest er í sé gjaldeyrisskapandi, að rekstur fyrirtækja sem fjárfest er í sé vel skalanlegur, að fyrirtæki sem fjárfest er í búi yfir viðunandi samkeppnisforskoti í formi þekkingar, viðskiptaleyndarmáls eða einkaleyfis og að frumkvöðullinn og teymið sem standa að baki fyrirtækjum sem fjárfest er í séu taldir framúrskarandi á sínu sviði. Að lokum er lögð áhersla á að fyrirtækið starfi í einhverjum eftirtalinna geira; hugbúnaður og veflausnir, afþreyingariðnaður, hátækni, líftækni, orkuiðnaður, sjávarútvegstækni eða matvælaframleiðsla.

Landsbréf og Brunnur Ventures GP eiga fyrir í góðu samstarfi um rekstur annars vísisjóðs, Brunns vaxtarsjóðs I, sem nú er fullfjárfestur og hefur m.a. fjárfest með góðum árangri í Oculis, DT Equipment, Grid, Laka Power, Nanitor og Avo Software.

Fréttasafn