29.08.2016 14:37

Framtakssjóðurinn Horn III kaupir 80% hlut í Basko ehf.

Horn III slhf., framtakssjóður í rekstri Landsbréfa hf., hefur keypt 80% hlut í Basko ehf. af félögum tengdum stjórnendum þess og bresku matvöruversluninni Iceland Foods. Basko ehf. fer með eignarhald á Rekstrarfélagi Tíu Ellefu ehf., Ísland-Verslun hf. og Imtex ehf. Rekstrarfélag Tíu Ellefu ehf. rekur samtals 35 þægindavöruverslanir undir merkjum 10-11 og Háskólabúðarinnar og er einnig móðurfélag Drangaskers ehf. sem rekur fjögur kaffihús undir merkjum Dunkin Donuts. Þá rekur félagið hamborgarastað undir nafninu Bad Boys. Ísland-Verslun hf. rekur þrjár matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu undir merkjum Iceland og Imtex ehf. annast innflutning og rekur vöruhús fyrir Basko samstæðuna.

Afhending hlutafjárins hefur farið fram en kaupverð er trúnaðarmál. Árni Pétur Jónsson verður áfram forstjóri Basko ehf. og er eftir kaupin næst stærsti hluthafi félagsins.

Framkvæmdastjórar Horns III:
"Basko er fyrsta fjárfesting Horns III. Basko hefur vaxið hratt á undanförnum árum með opnun nýrra staða og verslana. Við teljum mikil tækifæri vera á þessum markaði á Íslandi og stefna hluthafar að því að styrkja og efla félagið enn frekar. Verslanir dótturfélaga Basko eru vel staðsettar og hafa hluthafar félagsins markað sér skýra sýn sem unnið verður eftir næstu árin. Við erum mjög ánægðir með að hafa lokið þessum viðskiptum og hlökkum til samstarfsins."

Árni Pétur Jónsson, forstjóri og hluthafi í Basko ehf.:
"Það að fá Horn III inn sem hluthafa í Basko mun styrkja félagið og gefa okkur aukinn kraft. Fyrirtækin sem heyra undir Basko eru starfrækt á lifandi og skemmtilegum markaði þar sem þau hafa náð að skapa sér nafn og sérstöðu. Áhugi Horns III á því að taka þátt í uppbyggingu og rekstri félagsins er viðurkenning á því góða starfi sem starfsmenn okkar hafa unnið."

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og LOGOS lögmannsþjónusta voru ráðgjafar kaupanda.

Nánar um Horn III slhf.:
Horn III er 12 ma. kr. framtakssjóður stofnaður af Landsbréfum. Hluthafar eru rúmlega 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og öðrum fagfjárfestum. Horn III mun fjárfesta í óskráðum íslenskum fyrirtækjum og verður lögð áhersla á fyrirtæki með trausta og góða rekstrarsögu.

Fréttasafn