27.12.2013 11:13

Stjórnarhættir Landsbréfa til fyrirmyndar

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands hefur ákveðið að Landsbréf hf. fái viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Kemur ákvörðunin í kjölfar ítarlegrar úttektar á stjórnarháttum Landsbréfa sem unnin var af lögmannsstofunni Lex ehf. Niðurstaða úttektar Lex er sú að stjórnarhættir Landsbréfa geti að mörgu leyti verið öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar. 

Úttekin er unnin á vegum Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Nasdaq OMX Iceland hf. og Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands sem hafa tekið höndum saman um að efla eftirfylgni íslenskra fyrirtækja hvað varðar góða stjórnarhætti. Í þeim tilgangi er fyrirtækjum veitt tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti hefur það mat með höndum. Söfnun gagna fer fram hjá ráðgjöfum eða öðrum aðilum sem Rannsóknarmiðstöðin telur hæfa til verksins. Rannsóknarmiðstöðin byggir mat sitt í meginatriðum á því hvort gögnin gefi til kynna að viðkomandi fyrirtæki fylgi leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og NASDAQ OMX Iceland hf. gefa út. Þau fyrirtæki sem standast matið á framangreindum forsendum er veitt nafnbótin Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Landsbréf fagna þessari viðurkenningu og munu hér eftir sem hingað til leggja metnað sinn í að vera í fararbroddi í góðum stjórnarháttum.

 

Fréttasafn