28.11.2013 11:11

Blandaðir skuldabréfasjóðir hafa reynst fjárfestum vel

Jón Ingi Árnason og Rósa Björgvinsdóttir

Verðbréfasjóðurinn Markaðsbréf, í rekstri Landsbréfa hf., á 15 ára afmæli nú í nóvember. Markaðsbréf eru blandaður skuldabréfasjóður sem fjárfestir dreifðu safni markaðsskuldabréfa, svo sem skuldabréfum með ábyrgð ríkis, sveitarfélaga, fjármálastofnana og ólíkra fyrirtækja. Sjóðurinn hefur einnig víðtækar heimildir til fjárfestingar í innlánum. Að jafnaði er verðtryggingarhlutfall sjóðsins um 80% og hefur hann frjálsan meðallíftíma, en meðallíftími er mælikvarði á vaxtaáhættu sjóðsins.

Sjóðurinn er ætlaður bæði einstaklingum, fyrirtækjum  og fagfjárfestum.

Þessi fimmtán ár hafa óneitanlega verið sviptingasöm á íslenskum fjármálamarkaði og því forvitnilegt að horfa yfir farinn veg og meta hverju blandaðir skuldabréfasjóðir á borð við Markaðsbréf hafa skilað fjárfestum.

Eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum hefur verið mikil síðustu ár og er enn mikil vegna takmarkaðra fjárfestingarkosta lífeyrissjóða og erlends fjármagns sem lokað er inni í höftum. Á sama tíma hefur útgáfa ríkisskuldabréfa dregist saman í takt við minni halla á ríkissjóði og breytta stöðu Íbúðalánasjóðs.

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkaði verulega árin 2009-2012 og hefur haldist lág í sögulegu samhengi. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa fylgdi í kjölfarið og er einnig orðin mjög lág miðað við það sem áður hefur þekkst. Á undanförnum mánuðum hefur útgáfa annarra skuldabréfa en ríkisskuldabréfa þó glæðst og er markaður með slík bréf að styrkjast. Um er að ræða skuldabréf útgefin af sveitarfélögum, sértryggð skuldabréf fjármálastofnana og nú síðast skuldabréf fyrirtækja.

Á árinu 2008 voru samþykkt ný lög um svokölluð sértryggð skuldabréf. Þessi lög skapa umgjörð um útgáfu fjármálafyrirtækja á skuldabréfum sem hafa sérstakan trygginga- og fullnusturétt í tilgreindu eignasafni útgefandans. Slík bréf eru áhugaverður kostur á skuldabréfamarkaði þar sem þau eru bæði tryggð með veði og með ábyrgð útgefandans. Veð er yfirleitt tekið í fasteignalánasafni og er útgefanda skylt að viðhalda veðstöðu skuldabréfaeiganda eftir því sem aðstæður breytast. Stóru bankarnir þrír, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki hafa nú allir gefið út slík bréf, ýmist verðtryggð eða óverðtryggð.

Einnig er nú aðeins farið að bera á útgáfu fyrirtækjaskuldabréfa og líklegt að sá markaður fari vaxandi á næstu misserum. Umgjörð útgáfu fyrirtækjaskuldabréfa er jafnframt töluvert breytt og mun vandaðri en áður hvað varðar veð, veðgæslu og skilyrði sem útgefandi þarf að undirgangast.

Verðmyndun annarra skuldabréfa en skuldabréfa með ábyrgð ríkis hefur batnað og seljanleiki þeirra hefur aukist jafnt og þétt á síðustu misserum samhliða því að markaður með slík bréf hefur styrkst. Mörg þeirra nýju bréfa sem gefin hafa verið út á síðustu árum eru með samninga um viðskiptavakt sem var sjaldgæft á slíkum útgáfum á árum áður.

Síðustu ár hefur verið lögð mun meiri áhersla á gagnsæi í rekstri verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Landsbréfa og upplýsingagjöf til fjárfesta. Fjárfestar hafa nú aðgengi að upplýsingum um allar eignir Markaðsbréfa á hverjum tíma og gefur sjóðurinn til að mynda mánaðarlega út rafrænt fréttabréf þar sem fram koma upplýsingar um þróun markaðar og stöðu sjóðsins.

Gengisþróun Markaðsbréfa í samanburði við vísitölu neysluverðs

Raunávöxtun Markaðsbréfa frá stofnun hefur verið mjög góð, eða 3,9% á ársgrundvelli, m.v. 31. október síðastliðinn. Uppsöfnuð nafnávöxtun sjóðsins frá stofnun er 299% miðað við sama tíma. Í dag er sjóðurinn tæplega fimm milljarðar að stærð og hefur hann náð bestu nafnávöxtun blandaðra skuldabréfasjóða síðustu 12 mánuði, 6,82% m.v. 31. október. Hafa ber þó í huga að fjárfestingu í verðbréfum fylgir ávallt áhætta og að ávöxtun í fortíð segir ekki til um framtíðarárangur.

 

Ávöxtun m.v. 31. október 2013

Sl. Uppsöfnuð nafnávöxtun Nafnávöxtun á ársgrundvelli Uppsöfnuð raunávöxtun Raunávöxtun á ársgrundvelli
1 ár 6,8% 6,8% 2,8% 2,8%
3 ár 30,4% 9,3% 13,9% 4,4%
5 ár 67,1% 10,8% 27,2% 4,9%
10 ár 161,9% 10,1% 44,5% 3,7%
15 ár 299,1% 9,7% 76,5% 3,9%

Fyrir flesta fjárfesta er æskilegt að eiga eitthvað af öðrum skuldabréfum en ríkisskuldabréfum í safni sínu, bæði út frá sjónarmiðum um áhættudreifingu og einnig þar sem önnur skuldabréf hafa fengist með verulegu vaxtaálagi ofan á ríkisskuldabréf, oft á bilinu 0,3%-2%. Hafa verður í huga að flóra annarra skuldabréfa en ríkisskuldabréfa er mjög breið og skuldaraáhætta því ólík og mismikil.

Lágmarksfjárfestingar er oftar en ekki krafist við útgáfu í þessum flokki skuldabréfa. Því getur sjóður sem inniheldur slík bréf gefið fjárfestum færi á betri dreifingu og aðgang að fjárfestingum sem væru þeim annars ekki mögulegar. Blandaður skuldabréfasjóður getur því verið góður kostur fyrir fjárfesta sem kjósa að hafa hluta af eignasafni sínu í dreifðu safni skuldabréfa.

Höfundar eru sjóðstjórar skuldabréfasjóða hjá Landsbréfum hf.  Landsbréf hf. eru rekstrarfélag verðbréfa- og fjárfestingarsjóða og sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki í eigu Landsbankans hf. Ítarlegar upplýsingar um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði í rekstri Landsbréfa má finna hér á vef félagsins.

Fréttasafn