31.10.2013 12:50

Fyrsti kauphallarsjóðurinn á Íslandi sem fjárfestir í skuldabréfum

Nýr kauphallarsjóður, LREAL, var tekinn til viðskipta í Kauphöll Íslands í dag 31. október. LREAL er fyrsti sjóður sinnar tegundar á Íslandi og eru Landsbréf stolt af því að geta boðið viðskiptavinum tækifæri til að fjárfesta í slíkum sjóði.

LREAL fjárfestir í verðtryggðum ríkisskuldabréfum, en þau eru í dag stærstur hluti markaðsverðbréfa á Íslandi. LREAL mun endurspegla NOMXIREAL-vísitöluna sem NASDAQ OMX Iceland reiknar og birtir. Í vísitölunni eru verðtryggð ríkisbréf og skuldabréf með ábyrgð ríkisins samkvæmt reglum vísitölunnar. Þau skuldabréf sem mynda vísitöluna í dag eru allir fjórir flokkar íbúðabréfa ásamt verðtryggðum ríkisbréfum á gjalddaga 2021. Viðskiptavakt verður með hlutdeildarskírteinin í kauphöllinni og verður seljanleikinn því töluvert mikill. Fjárfestar munu einnig geta nálgast lifandi innra virði sjóðsins á heimasíðu Landsbréfa á meðan opið er fyrir viðskipti með sjóðinn í kauphöll.

Fyrr í sumar var kauphallarsjóðurinn Landsbréf LEQ tekinn til viðskipta á NASDAQ OMX á Íslandi en sjóðurinn var þá fyrsti íslenski kauphallarsjóðurinn. LEQ er hlutabréfasjóður sem endurspeglar OMXI6 cap-vísitöluna.

„Með frekari uppbyggingu og þróun á íslenskum verðbréfamarkaði eru kauphallarsjóðir að ryðja sér til rúms hér á landi líkt og raunin hefur verið á erlendum mörkuðum á undanförnum árum. Landsbréf ætla sér að vera í farabroddi í þeirri uppbyggingu,“ segir Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Landsbréfa.

Nánari upplýsingar um LREAL

Fréttasafn