Áhættuþættir

Fjárfesting í skuldabréfasjóðum

Upplýsingar um helstu áhættuþætti

Skuldabréfasjóður er sjóður sem veitir viðtöku fé til sameiginlegrar fjárfestingar. Skuldabréfasjóður fjárfestir aðallega í skuldabréfum útgefnum af aðilum sem fjármagna sig með útgáfu bréfanna og í innlánum hjá fjármálastofnunum. Þessir aðilar geta verið ríki, sveitarfélög og stofnanir, fjármálastofnanir og ýmis önnur fyrirtæki. Sjóðirnir kaupa skuldabréf á markaði samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu og innheimta af þeim afborganir og vexti. Virði sjóðanna á hverjum tíma ræðst einnig af verðbreytingum á bréfunum þegar þau ganga kaupum og sölum á markaði.

Viðskiptavinir sem eiga hlut í sjóði eiga hlutfallslega kröfu á þær eignir sem sjóðurinn á. Þeir eiga því óbeint kröfu á íslenska ríkið, sveitarfélög, fjármálastofnanir og fyrirtæki í gegnum sjóðinn. Tilgangur sjóðanna er að ávaxta fé sjóðfélaga og dreifa áhættu með kaupum á fleiri en einum flokki fjármálagerninga.

Styrkur hvers sjóðs ræðst af undirliggjandi eignum hans, það er fjárhagslegum styrk útgefenda þeirra verðbréfa sem viðkomandi sjóður hefur fjárfest í og eftir atvikum þeim veðum sem einstakir útgefendur hafa lagt fram til tryggingar skuldum sínum. Staða og afdrif þeirra rekstrarfélaga sem reka sjóði hafa því ekki með beinum hætti áhrif á virði sjóðanna þar sem efnahagur þeirra er aðskilinn efnahag viðkomandi rekstrarfélags.

Skuldabréfasjóðir Landsbréfa eru ýmist verðbréfasjóðir eða fjárfestingarsjóðir sem starfa samkvæmt lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði og lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða,og lúta eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.Þeir hafa hver um sig mismunandi fjárfestingarstefnu og meðallíftíma.

Meðallíftími sjóðs er vegið meðaltal meðallíftíma undirliggjandi eigna sjóðsins. Meðallíftími skuldabréfs er mælikvarði á næmni verðs á skuldabréfi fyrir breytingum á markaðsvöxtum (ávöxtunarkröfu). Meðallíftíminn segir til um hversu lengi höfuðstóll skuldabréfs, ásamt vöxtum og verðbótum, er að meðaltali bundinn í fjárfestingunni. Því lengri sem meðallíftími er, því næmara er verð bréfsins fyrir vaxtabreytingum. Stuttur meðallíftími sjóðs þýðir þannig að gengi sjóðsins sveiflast frekar lítið við breytingar á ávöxtunarkröfu bréfa á markaði.

Ávöxtunarkrafa skuldabréfs er sú krafa sem kaupandi bréfsins gerir til ávöxtunar á fé sínu á ársgrundvelli. Ávöxtunarkrafan eru þeir vextir sem gera núvirt greiðsluflæði bréfsins jafnt verði þess. Þannig stýrir ávöxtunarkrafa fjárfesta verði bréfa á markaði.

Fjárfesting í skuldabréfasjóðum felur ætíð í sér einhverja áhættu. Fjárfesting í hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða er þó að jafnaði áhættuminni en þegar keyptir eru einstakir fjármálagerningar, þar sem hver sjóður dreifir áhættu fjárfesta með kaupum í fleiri en einum flokki fjármálagerninga. Vakin er sérstök athygli á því að rýmri heimildir fjárfestingarsjóða til fjárfestinga í samanburði við heimildir verðbréfasjóða geta leitt til þess að meiri áhætta er fólgin í fjárfestingu í fjárfestingarsjóðum en verðbréfasjóðum.

Hafa verður í huga að hlutdeildarskírteini sjóða geta lækkað í verði ekki síður en hækkað og eru því ekki áhættulaus og fjárfestar kunna að fá minna til baka en upphaflega var fjárfest fyrir. Nauðsynlegt er að fjárfestar kynni sér vel lykilupplýsingar, útboðslýsingu og þá áhættu sem fólgin er í því að fjárfesta í skuldabréfasjóðum áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu. Hér að neðan er gerð grein fyrir helstu áhættuþáttum sem hafa þarf í huga áður en ákvörðun er tekin um fjárfestingu:

Skuldaraáhætta (greiðsluáhætta) er til staðar í skuldabréfasjóðum. Skuldaraáhætta er sú áhætta að útgefandi verðbréfs standi ekki við skuldbindingar sínar og fari í gjaldþrot eða nauðasamninga og fjárfesting tapist því að hluta til eða að öllu leyti. Innlánakröfur geta tapast við gjaldþrot fjármálastofnunar sem sjóður á innlán hjá. Fjárfestingar skuldabréfasjóða geta verið nokkuð áhættusamar þegar horft er til skuldaraáhættu. Skuldaraáhætta minnkar með auknum fjölda útgefenda og er almennt talin vera meiri ef um verðbréf fyrirtækja er að ræða en ef um verðbréf með ríkisábyrgð er að ræða.

Markaðsáhætta fylgir öllum fjármálagerningum. Markaðsáhætta er sú áhætta sem ekki er hægt að eyða með dreifðu eignasafni. Undir markaðsáhættu falla til dæmis vaxtaáhætta og gengisáhætta.

  • Vaxtaáhætta felst í áhrifum breytinga á markaðsvöxtum á verðmyndun skuldabréfa. Hækki ávöxtunarkrafa á markaði leiðir það til lækkunar á verði skuldabréfa og öfugt. Ávöxtunarkrafa bréfa getur hækkað t.d. við vaxtahækkanir Seðlabanka eða vegna mikils framboðs. Almennt eykst vaxtaáhætta eftir því sem meðallíftími eigna í sjóðum er lengri. Til þess að draga úr sveiflum má leitast við að spá fyrir um þróun vaxta. Þannig er hægt að lengja meðallíftíma fjárfestinga þegar vaxtalækkun er líkleg en stytta þegar líkur eru á hækkun. Erfitt getur reynst að sjá fyrir um sveiflur í ávöxtunarkröfu skuldabréfa og því viðbúið að sveiflur geti orðið í gengi sjóða við miklar breytingar á ávöxtunarkröfu.
  • Gengisáhætta (gjaldmiðlaáhætta) er áhætta sem felst í því að gengi gjaldmiðla getur sveiflast með ófyrirsjáanlegum hætti og haft þannig áhrif á ávöxtun sjóða. Íslensk fyrirtæki geta gefið út skuldaskjöl í erlendri mynt sem skuldabréfasjóðir kunna að fjárfesta í.

Áhætta tengd fjárfestingum í innlánum er í skuldabréfasjóðum. Meiri áhætta fylgir almennt fjárfestingu í bundnum innlánum. Innlán í eigu sjóðsins, hverju nafni sem þau kunna að nefnast, njóta ekki tryggingaverndar samkvæmt lögum.

Áhætta tengd smæð markaðar eða eignatengsla útgefanda verðbréfa. Íslenskur verðbréfamarkaður er smár í sniðum og því fylgir að kaupendur og seljendur einstakra verðbréfa eru oft fáir. Af þeim sökum getur verðmyndun á markaði verið óvirkari en gerist á stærri mörkuðum. Einnig geta eignatengsl verið á milli útgefenda verðbréfa sem getur leitt til þess að greiðslufall einstakra útgefenda hefur víðtækari áhrif en annars myndi verða.

Seljanleikaáhætta/Lausafjáráhætta er til staðar í skuldabréfasjóðum þar sem sú staða gæti komið upp að eign seljist ekki tímanlega á ásættanlegu verði ef þess er þörf, til dæmis ef miklar innlausnir verða í sjóði. Lausafjáráhætta er því sú áhætta að of lítið laust fé sé til í sjóði til að standa undir greiðsluskuldbindingum á hverjum tíma.

Verðbólguáhætta er til staðar í þeim skuldabréfasjóðum sem hafa heimild til fjárfestinga í óverðtryggðum skuldabréfum.

Frammistöðuáhætta er til staðar í skuldabréfasjóðum þar sem stýring sjóðanna telst virk og árangur sjóðsins getur verið betri eða verri en á skuldabréfamörkuðum.

Uppgjörsáhætta er til staðar, ef útgefandi eða mótaðili í viðskiptum greiðir ekki eða afhendir ekki fjármálagerning á réttum tíma.

Vörsluáhætta er í skuldabréfasjóðum þar sem eignir í vörslu geta tapast vegna gjaldþrots, vanrækslu eða sviksamlegra athafna af hálfu vörslufyrirtækis.

Rekstraráhætta er í skuldabréfasjóðum, fjármunir gætu tapast vegna ófullnægjandi innri ferla og mistaka í tengslum við mannauð og kerfi rekstrarfélagsins, eða vegna ytri atburða, þar með talin lagaleg áhætta og áhætta vegna verklags við viðskipti, miðlun, uppgjör og mat sem innt er af hendi fyrir hönd sjóða.