24.03.2017 10:12

Horn III kaupir helmingshlut í Líflandi

Framtakssjóðurinn Horn III, sem er í rekstri Landsbréfa, hefur fest kaup á 50% hlut í Líflandi. Þórir Haraldsson, framkvæmdastjóri Líflands, er eigandi helmingseignarhlutar í félaginu á móti Horni. Seljandi er Sólveig Pétursdóttir og fjölskylda.

Meginstoð rekstrar Líflands er framleiðsla á fóðri og sala á rekstrarvörum til landbúnaðar, mölun og sala á Kornax hveiti og öðrum tengdum vörum ásamt rekstri á sex sérverslunum fyrir hestamenn og bændur víðsvegar um landið. Hjá félaginu starfa alls um 80 manns. Lífland á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1917 þegar Mjólkurfélag Reykjavíkur var stofnað af bændum með það að markmiði að sjá um móttöku og dreifingu mjólkur til Reykvíkinga.

Horn III er 12 ma.kr. framtakssjóður með um 30 hluthafa sem meðal annars eru lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og fagfjárfestar. Yfirlýst stefna Horns III er að fjárfesta í óskráðum félögum í íslensku atvinnulífi með trausta og góða rekstrarsögu. Kaup á hlut í Líflandi eru þriðju kaup sjóðsins.

Íslandsbanki veitti kaupanda ráðgjöf og hafði umsjón með framkvæmd viðskiptanna. BBA legal og LEX veittu aðilum viðskiptanna jafnframt lögfræðiráðgjöf.


Framkvæmdastjórar hjá Horni III

„Lífland er rótgróið félag með öflugan rekstur. Félagið hefur staðið í miklum fjárfestingum síðustu ár sem við teljum að muni skila sér í aukinni hagræðingu og tækifærum. Við hjá Horni teljum félagið vera í góðri stöðu til að eflast frekar og á komandi árum.“


Þórir Haraldsson, forstjóri og meðeigandi

„Síðustu ár hafa verið viðburðarík hjá Líflandi en einna hæst ber að nefna kaup félagsins á höfuðstöðvum sínum að Brúarvogi ásamt framkvæmdum við fóðurverksmiðjuna á Grundartanga. Á sama tíma og við þökkum seljendum fyrir samstarfið við uppbyggingu Líflands bjóðum við Horn III velkomin í hluthafahópinn.“