18.12.2012 10:26

Landsbréf stofna félag í tengslum við kjölfestuhlut í Bláa Lóninu

bláa lónið

Grímur Sæmundsen, Edvard Júlíusson og Landsbréf hf. hafa stofnað nýtt félag, Hvatningu slhf., utan um kjölfestuhlut í Bláa Lóninu hf. Eigendur Hvatningar eru annars vegar Kólfur ehf., félag í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins hf. og Edvards Júlíussonar og hins vegar Horn hf. sem er félag í stýringu hjá Landsbréfum. Horn II slhf., sem er nýr framtakssjóður í rekstri Landsbréfa hf., hefur kauprétt að eignarhluta Horns í Hvatningu.

Í gegnum Hvatningu munu hluthafarnir vinna sameiginlega að því að styrkja Bláa Lónið hf. enn frekar, enda eru mikil tækifæri í fjárfestingu í ferðaþjónustu á Íslandi þar sem fjölgun ferðamanna hefur verið mikil og væntingar eru um frekari vöxt í framtíðinni. Hvatning slhf. er stærsti einstaki hluthafinn í Bláa Lóninu hf.

Landsbréf vænta þess að fjárfestingin í Bláa Lóninu verði fyrsta af nokkrum áhugaverðum fjárfestingum Horns II í íslensku atvinnulífi. Landsbréf eru nú um mundir að bjóða viðskiptavinum sínum að kaupa hluti í Horn II, en gert er ráð fyrir að eigið fé félagsins verði á bilinu 4-8 milljarðar króna þegar félagið verður fullfjármagnað.

Bláa Lónið er einn þekktasti og eftirsóttasti áfangastaður ferðamanna á Íslandi. Gestafjöldi í Bláa Lónið hefur farið vaxandi með hverju árinu sem hefur liðið. Landsbréf telja mikil tækifæri felast í samstarfi við Grím Sæmundsen sem hefur verið frumkvöðull að uppbyggingu Bláa Lónsins eins og kunnugt er og mikill áhugamaður um frekari uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu.