10.11.2016 16:36

Framtakssjóðurinn Horn III slhf. kaupir 100% hlut í félögunum Hagvögnum hf., Hópbílum hf. og Hvaleyri hf.

Seljendur félaganna eru hjónin Gísli J. Friðjónsson og Hafdís Alexandersdóttir og er kaupverðið trúnaðarmál. Gísli er núverandi forstjóri félaganna og mun þeim innan handar næstu tvö árin, fyrst um sinn sem forstjóri og síðar sem ráðgjafi.

Hagvagnar reka strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu með langtímasamningum við Strætó bs. og er félagið einn stærsti undirverktaki Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu.

Hópbílar eru einn stærsti undirverktaki Strætó bs. úti á landi og stærsti undirverktakinn þegar kemur að ferðaþjónustu fatlaðra. Hópbílar eru einnig í almennri útleigu hópferðabifreiða og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan og þjónustan við fatlaða hefur verið í miklum vexti.

Hvaleyri er fasteignafélag utan um fasteignir sem nýttar eru í rekstri Hópbíla og Hagvagna m.a í Hafnarfirði en einnig á félagið lóð á góðum stað í Kópavogi.

Rekstur félaganna hefur gengið vel á undanförnum árum. Þau reka einn stærsta flota hópferðabifreiða á landinu og stór hluti af tekjum félaganna eru samningsbundnar til langs tíma. Félögin hafa alla burði til að efla rekstur sinn enn frekar á sviði ferðaþjónustu og njóta þar góðs af nýlegum bílaflota, auk gæða- og umhverfisvottana. Velta félaganna á síðasta ári nam um 3,2 milljörðum króna.

Framkvæmdastjórar Horns III
"Hagvagnar, Hópbílar og Hvaleyri eru önnur fjárfesting Horns III. Horn III er að kaupa vel rekin fyrirtæki sem sýnt hafa fram á stöðugan en vaxandi rekstur á undanförnum árum. Félögin hafa yfir að ráða nýlegum flota hópferðabíla og við teljum mikil tækifæri felast í rekstri þeirra, þar sem áhersla verður lögð á að viðhalda því góða orðspori sem félögin byggja á ásamt því að skoða enn frekar vaxtartækifæri í ferðaþjónustunni".

Gísli J. Friðjónsson, forstjóri og annar af seljendum félaganna
"Hagvagnar, Hópbílar og Hvaleyri eru fyrirtæki, sem hafa verið byggð upp á undanförnum 25 árum. Félögin hafa á þeim tíma átt farsæl viðskipti og samstarf við fjölmarga viðskiptavini, verkkaupa og birgja að ógleymdum þeim fjölda starfsmanna sem hafa lagt félögunum lið og starfað af einstakri alúð og trúmennsku. Það er gott að vita af félögunum í höndum öruggra fjárfesta sem vinna af heiðarleika og hafa faglega þekkingu að leiðarljósi. Við þökkum viðskiptavinum, birgjum og starfsfólki fyrir ánægjuleg samskipti og óskum öllum, nýjum eigendum og félögunum velfarnaðar".

Akrar Consult og Pacta lögmenn voru ráðgjafar kaupanda.

Nánar um Horn III slhf.
Horn III er 12 milljarða króna framtakssjóður stofnaður af Landsbréfum. Hluthafar eru rúmlega 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og öðrum fagfjárfestum. Horn III fjárfestir í óskráðum íslenskum fyrirtækjum og leggur áherslu á fyrirtæki með trausta og góða rekstrarsögu.

Fréttasafn