04.12.2015 15:42

Brunnur vaxtasjóður fjárfestir í ARK Technology

Brunnur vaxtarsjóður slhf. hefur náð samkomulagi við ARK Technology ehf. um kaup á hlut í félaginu og verður hlutafé ARK aukið. Stofnendur ARK taka einnig þátt í hlutafjáraukningunni og verða áfram stærsti hluthafinn í gegnum fjárfestingarfélagið Klappir ehf. Í heild nemur þessi fjármögnun félagsins 300 milljónum króna. Fjárfestingunni er ætlað að styðja við frekari vöruþróun, sölu- og markaðssetningu.

ARK Technology framleiðir og selur umhverfisstjórnunarhugbúnaðinn ARK Enterprise og aðstoðar fyrirtæki við innleiðingu hans. ARK Enterprise mælir alla þætti mengunar í virðiskeðju fyrirtækis og styður við sett markmið í umhverfismálum. Umhverfisframmistaða rekstrareininga er reiknuð á grundvelli þeirra gagna sem ARK Enterprise safnar og geta stjórnendur nálgast lykilupplýsingar í notendaviðmóti þess. ARK Enterprise styður því stjórnendur við að fylgja eftir umhverfismarkmiðum fyrirtækisins, hafa eftirlit með mengun, nýta orku og aðföng betur, draga úr rekstrarkostnaði og uppfylla reglugerðir um mengunarmál á einfaldan og skilvirkan hátt. ARK Enterprise nýtist einnig hafnaryfirvöldum, sveitarfélögum og þjóðríkjum til að sporna við sívaxandi mengun lands og sjávar.

Viðskiptavinir ARK leggja mikinn metnað í að bæta sífellt umhverfisframmistöðu sína og nota til þess ARK Enterprise. ARK hefur á undanförnum árum búið að öflugum stuðningi Tækniþróunarsjóðs, Rannís og NORA.

Jón Ágúst Þorsteinsson, stjórnarformaður ARK Technology:

„ARK Technology vinnur að þróun og innleiðingu lausna sem auka sjálfbærni og minnka sóun á öllum stigum. Við erum ánægð með að Brunnur vaxtarsjóður hafi ákveðið að vinna með okkur við að þróa áfram fyrirtækið. Nauðsynlegt er að fyrirtæki í grænni tækni vaxi og dafni svo hægt sé að takast á við þau mikilvægu verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir sökum loftslagsbreytinga.“

Sigurður Arnljótsson, fjárfestingarstjóri Brunns vaxtarsjóðs:

„Fyrirtæki á öllum sviðum leggja nú sífellt meiri áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif og hugbúnaður ARK Tehcnology nýtist sérstaklega vel við það mikilvæga verkefni. Jón Ágúst Þorsteinsson stjórnarformaður ARK býr að áratuga reynslu, þekkingu og samböndum í þessum iðnaði eftir að hafa byggt upp Marorku. Við hlökkum til að taka þátt í því með honum og ARK teyminu í að byggja upp öflugt hugbúnaðarfyrirtæki.“

Um Brunn vaxtarsjóð

Brunnur vaxtarsjóður er 4 milljarða króna fjárfestingasjóður í rekstri Landsbréfa hf. og SA Framtaks GP ehf., sem jafnframt er ábyrgðaraðili fyrir sjóðinn. Sjóðurinn er í eigu íslenskra lífeyrissjóða, Landsbankans og nokkurra fagfjárfesta. Sjóðurinn fjárfestir í íslenskum nýsköpunar- og vaxtafyrirtækjum sem selja eða stefna á að selja vörur eða þjónustu á erlenda markaði.

Um Klappir

Klappir ehf., einbeitir sér að fjárfestingum í fyrirtækjum sem þróa og framleiða framúrskarandi tækni á sviði orkusjórnunar og umhverfismála. Klappir vinna með fjölmörgum aðilum sem vilja auka þekkingu og fjölga lausnum sem stuðla að sjálfbærri umgengni við hafið. Eigendur Klappa eru Hildur Jónsdóttir, Jón Ágúst Þorsteinsson, Sigrún Hildur Jónsdóttir og Þorsteinn Svanur Jónsson. Fyrir eiga Klappir meðal annars hlut í Marorku.

Fréttasafn