06.08.2015 10:46

285 milljóna króna hagnaður á fyrri helmingi ársins

Landsbréf hf. hafa birt árshlutareikning vegna fyrri hluta ársins 2015. Í lok júní önnuðust Landsbréf rekstur 30 sjóða og félaga um sameiginlega fjárfestingu og eignir í stýringu voru um 104 milljarðar króna. Um 12 þúsund einstaklingar og lögaðilar eiga fjármuni í sjóðum eða í stýringu hjá Landsbréfum.

  • Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 285 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2015.
  • Hreinar rekstrartekjur námu 762 milljónum króna á tímabilinu.
  • Eigið fé Landsbréfa í lok júní nam 2.117 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 65,39%.

Hreinar rekstrartekjur námu 762 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2015, en 493 milljónum króna á sama tímabili árið áður. Hagnaður af rekstri nam 285 milljónum króna á fyrri hluta ársins, samanborið við 75 milljóna króna hagnað á sama tíma á síðasta ári. Eigið fé Landsbréfa í lok tímabilsins nam 2.117 milljónum króna og eiginfjárhlutfall, reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 65,39% en það má ekki fara undir 8%.

Umsvif félagsins tengd sérhæfðum fjárfestingum voru sem fyrr umtalsverð. Sérstaklega ber að nefna stofnun Brunns vaxtarsjóðs slhf. sem er 4 milljarða króna nýsköpunarsjóður en hann tók til starfa í upphafi árs. Félagið rekur einnig Horn II slhf., sem fjárfestir í öllum geirum íslensks atvinnulífs og Landsbréf Icelandic Tourism Fund I slhf., sem sérhæfir sig í fjárfestingum í afþreyingartengdri ferðaþjónustu.

Landsbréf reka tvo hlutabréfasjóði í virkri stýringu sem fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði, Landsbréf - Úrvalsbréf og Landsbréf - Öndvegisbréf. Jafnframt rekur félagið hlutabréfasjóðinn Landsbréf - LEQ sem er vísitölusjóður sem skráður er í Nasdaq OMX kauphöllina. Ávöxtun Landsbréfa - Úrvalsbréfa og Landsbréfa - Öndvegisbréfa var framúrskarandi á tímabilinu, eða 19,71% og 21,58%. Ávöxtun Landsbréfa – LEQ var einnig góð, eða 15,05%. Ávöxtun sjóðanna endurspeglar góða ávöxtun á íslenskum hlutabréfamarkaði á fyrstu sex mánuðum ársins og góðan árangur í stýringu. Heildarstærð sjóðanna í lok júní var um 17,9 milljarðar króna.

Félagið rekur tvo erlenda hlutabréfasjóði. Landsbréf – Global Equity Fund skilaði 5,63% ávöxtun á tímabilinu og Landsbréf – Nordic 40 sem er vísitölusjóður, en hann skilaði 14,71% nafnávöxtun. Stærð sjóðanna í lok júní 2015 var um 3,6 milljarðar króna.

Landsbréf hf. reka nokkra ríkisskuldabréfasjóði og hefur ávöxtun þeirra almennt verið ágæt miðað við markaðsaðstæður, en verðtryggð skuldabréf gáfu góða ávöxtun á tímabilinu á meðan óverðtryggð skuldabréf lækkuðu almennt í verði. Ríkisskuldabréfasjóðir Landsbréfa stækkuðu lítillega á fyrri helmingi ársins. Af öðrum skuldabréfasjóðum má nefna Landsbréf - Veltubréf II sem stækkaði úr rúmum 10 milljörðum í rúma 14 milljarða á fyrri hluta ársins 2015.

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa segir:

„Rekstur Landsbréfa hefur gengið mjög vel það sem af er ári og hafa sjóðir félagsins almennt skilað góðri ávöxtun. Sjóðaframboð Landsbréfa er fjölbreytt og hæfir þörfum ólíkra fjárfesta. Líklegt má telja að næstu misseri verði hagfelld á mörkuðum og munu Landsbréf áfram leggja metnað sinn í að stýra þeim fjármunum sem félaginu er treyst fyrir á öruggan og markvissan hátt í þágu sjóðsfélaga.“

Árshlutareikningur vegna fyrri helmings árs 2015 (pdf)

Lykiltölur Landsbréfa 30. júní 2015 (pdf)

Fréttasafn