13.05.2014 09:13

Horn II slhf. kaupir meirihluta í Keahótelum ehf.

Horn II slhf. kaupir meirihluta í Keahótelum ehf.Framtakssjóðurinn Horn II slhf. sem er í rekstri Landsbréfa hefur fest kaup á 60% hlut í Keahótelum ehf., einu stærsta hótelfélagi landsins. Keahótel ehf. reka meðal annars Hótel Kea á Akureyri og Hótel Borg í Reykjavík. Seljandi er eignarhaldsfélagið Hvannir ehf. Meirihlutaeigendur Hvanna ehf. eru þeir Kristján Grétarsson, Fannar Ólafsson og Andri Gunnarsson. Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keahótela, verður áfram hluthafi í félaginu. Enginn breyting verður á rekstri félagsins við þessa breytingu á eigendahópnum.

Keahótel ehf. stendur að mikilli  uppbyggingu um þessar mundir. Í haust tekur félagið meðal annars við rekstri nýs hótels við Austurvöll þar sem áður var Reykjavíkurapótek og vorið 2015 bætist við nýtt hótel við Hverfisgötu og viðbygging við Hótel Borg verður tekin í notkun.

„Við erum mjög ánægð með aðkomu Horns að félaginu,“ segir Páll L. Sigurjónsson framkvæmdastjóri Keahótela ehf. „Um þessar mundir er mikilvægur tími í uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi. Að fá öflugan aðila eins og Horn að félaginu  gefur gefur því enn meiri styrk og möguleika til að taka  virkari þátt í þeirri uppbyggingu. Við höfum skilað hagnaði á hverju ári í okkar 15 ára rekstrarsögu, innviðirnir eru sterkir og við erum því mjög bjartsýn á framhaldið.“

Horn II er rúmlega 8,5 ma.kr. félag um framtaksfjárfestingar stofnað af Landsbréfum. Hluthafar eru um 30 lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og fagfjárfestar. Yfirlýst stefna Horns II er að fjárfesta í óskráðum félögum með trausta og vel þekkta rekstrarsögu. Kaupin í Keahótelum eru þriðja fjárfesting sjóðsins á þessu ári og önnur af tveimur fjárfestingum í ferðaþjónustu.

„Horn II telur mikla möguleika fólgna í ferðaþjónustu á Íslandi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í innviðum ferðaþjónustunnar á undanförnum árum og teljum við Keahótel í einstaklega góðri aðstöðu til að taka þátt í frekari uppbyggingu á næstu árum. Við teljum okkur mjög vel sett með fjárfestingu í Keahótelum þar sem saman hefur farið góð arðsemi og vöxtur. Horfur í rekstri félagsins benda ennfremur til þess að svo verði áfram“ segir Steinar Helgason annar af framkvæmdastjórum Horns II. „

Icora Partners veitti seljendum ráðgjöf við söluna.

Fréttasafn