06.05.2014 10:20

Horn II eykur hlut sinn í Bláa Lóninu

Horn II slhf. og Kólfur ehf. hafa náð samkomulagi um viðbótarkaup Horns II slhf. á eignarhlut í Hvatningu slhf. Eftir kaupin á Horn II slhf. 49,45% eignarhlut í Hvatningu slhf. sem er stærsti hluthafinn í Bláa Lóninu hf. með 43% eignarhlut. Eigendur Hvatningar eru annars vegar Kólfur ehf., félag í meirihlutaeigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins hf. og hins vegar Horn II slhf. sem er félag um framtaksfjárfestingar í rekstri Landsbréfa hf.

Landsbréf telja mikil tækifæri felast í samstarfi við Grím Sæmundsen sem hefur verið frumkvöðull að uppbyggingu Bláa Lónsins eins og kunnugt er og mikill áhugamaður um frekari uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu.

Rekstur Bláa Lónsins hefur gengið mjög vel undanfarin ár. Bláa Lónið er einn þekktasti og eftirsóttasti áfangastaður ferðamanna á Íslandi og hefur orðspor félagsins aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Mikill vöxtur hefur verið í heimsóknum ferðamanna í Bláa Lónið og gera spár markaðsaðila ráð fyrir miklum áframhaldandi vexti ferðamanna til landsins. Fyrirhugað er að ráðast í framkvæmdir við Bláa Lónið á næstu misserum til að takast á við þann vöxt sem vænst er og er þar helst til skoðunar stækkun á upplifunarsvæði lónsins ásamt byggingu á 5 stjörnu hóteli.

Í gegnum Hvatningu munu hluthafarnir vinna sameiginlega að því að styrkja Bláa Lónið hf. enn frekar, enda eru mikil tækifæri í fjárfestingu í ferðaþjónustu á Íslandi þar sem fjölgun ferðamanna hefur verið mikil og væntingar eru um frekari vöxt í framtíðinni.

Fréttasafn