26.03.2014 09:58

Aðalfundur Landsbréfa 21. mars 2014

Aðalfundur Landsbréfa hf. var haldinn föstudaginn 21. mars 2014. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf. 

Stjórn félagsins var endurkjörin. Samþykkt var að arður yrði ekki greiddur vegna rekstrar ársins 2013 en hagnaði skyldi ráðstafað til hækkunar eigin fjár.

Sigurbjörn Jón Gunnarsson formaður stjórnar Landsbréfa flutti skýrslu stjórnar og Sigþór Jónsson framkvæmdastjóri félagsins fór yfir helstu atriði í rekstri og helstu verkefnin á yfirstandandi ári.

Sigurbjörn Jón Gunnarsson greindi frá því í ræðu sinni að rekstur Landsbréfa hefði gengið mjög vel á árinu 2013. Umfangið hefði aukist jafnt og þétt og í lok árs hefði félagið annast rekstur 29 sjóða um sameiginlega fjárfestingu og stýringu eigna fyrir fimm lögaðila samkvæmt sérstökum samningum. Eignir í stýringu hefðu aukist um 33% og verið um 110 milljarðar í lok árs. Hagnaður af rekstri var 187 milljónir króna samanborið við 7 milljónir árið áður og eigið fé í árslok 1.633 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var 116,7% en lögbundið lágmark er 8%. Þá var eiginfjárgrunnur félagsins 168% af föstum rekstrarkostnaði, en hlutfall þetta má ekki vera lægri en 25%. Í máli Sigurbjörns kom fram að mikil viðurkenning hefði verið í því fólgin þegar Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta valdi Landsbréf til að stýra eignum sjóðsins. Þá hefðu stjórnarhættir félagsins verið teknir sérstaklega út af lögmannstofunni Lex og félagið í framhaldi þeirrar úttektar fengið sérstaka viðurkenningu frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. 

Í máli Sigþórs Jónssonar, framkvæmdastjóra kom fram að félagið hefði náð öllum helstu markmiðum sínum á árinu 2013. Hann sagði styrk Landsbréfa m.a. liggja í fjölbreyttu vöruúrvali og félagið kæmi með sjóðum sínum að íslenskum atvinnurekstri á öllum stigum, allt frá frumstigi reksturs fyrirtækja til skráðra félaga. Með þessu væri lagður grunnur að meginhlutverki félagsins sem væri „að vera hreyfiafl sem með virkri eignastýringu brúar bilið á milli sparnaðar og fjármögnunar á öllum stigum íslensks samfélags.“

Allt efni um aðalfund félagsins, ársskýrslu og fylgigögn má nálgast á vef Landsbréfa

 

Fréttasafn