25.02.2014 12:35

Ársreikningur Landsbréfa hf. 2013

187 milljóna króna hagnaður á árinu 2013 – eignir í stýringu jukust um 33% og námu rúmum 110 milljörðum króna í árslok.

Landsbréf hf. hafa birt ársreikning vegna ársins 2013.  Í lok tímabilsins önnuðust Landsbréf rekstur 34 sjóða og félaga  og voru eignir í stýringu um 110 milljarðar króna og höfðu aukist um 33% á árinu. Alls eru um 12 þúsund einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í sjóðum eða í eignastýringu hjá Landsbréfum.

  • Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 187 milljónum króna á árinu 2013, samanborið við 7 milljóna króna hagnað fyrir rekstrarárið 2012.
  • Hreinar rekstrartekjur námu 969 milljónum króna á tímabilinu, en námu 443 milljónum króna rekstrarárið 2012.
  • Eigið fé Landsbréfa í árslok nam um 1.644 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall 115,5%.
  • Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta valdi Landsbréf sem einn þriggja aðila til að stýra eignum sjóðsins að undangengnu útboði og ítarlegu hæfismati.
  • Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands veitti Landsbréfum í lok ársins viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Árið 2013 einkenndist af mikilli vöruþróun og örum vexti í rekstri Landsbréfa. Hreinar rekstrartekjur ársins voru 969 milljónir króna samanborið við 443 milljónir króna árið áður og hagnaður af rekstri nam 187 milljónum króna samanborið við 7 milljónir króna árið áður. Eigið fé Landsbréfa í árslok nam 1.644 milljónum króna og eiginfjárhlutfall þess reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki var 115,5%, en þetta hlutfall má ekki vera undir 8% samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Í árslok 2013 önnuðust Landsbréf rekstur 34 sjóða og félaga samanborið við 20 í ársbyrjun og nam heildarstærð sjóða í rekstri Landsbréfa ásamt eignum í stýringu um 110 milljörðum kr. í árslok samanborið við um 82 milljónir í ársbyrjun eða sem nemur 33% aukningu á milli ára.  Starfsmenn voru 19 í árslok, en þeir voru 15 í ársbyrjun.

Ávöxtun sjóða góð

Landsbréf bjóða mjög fjölbreytt og vaxandi úrval sjóða. Skuldabréfasjóðir Landsbréfa  skiluðu góðum árangri á árinu og var til að mynda sjóðurinn Landsbréf – Sparibréf óverðtryggð með bestu ávöxtun allra ríkisskuldabréfasjóða á árinu eða 5,1% samkvæmt óháðu vefsíðunni www.sjodir.is. Aðrir skuldabréfasjóðir gáfu einnig góða ávöxtun í samanburði við sambærilegra sjóði hjá samkeppnisaðilum og má þar nefna sérstaklega Landsbréf – Markaðsbréf sem var með hæstu nafnávöxtun allra skuldabréfasjóða á árinu eða 6,1%. Skuldabréfasjóðir félagsins minnkuðu lítilsháttar sem á sér þá skýringu helsta að fjárfestar færðu sig í auknum mæli úr skuldabréfum í hlutabréf á árinu.  Innlendir hlutabréfasjóðir Landsbréfa stækkuðu þannig um 103% á árinu og skiluðu þeir allir góðri ávöxtun.

Umsvif tengd framtaksfjárfestingum aukast

Umsvif tengd framtaksfjárfestingum jukust verulega hjá Landsbréfum á árinu 2013, en þá var lokið við fjármögnun tveggja samlagshlutafélaga á sviði framtaksfjárfestinga. Þar er annars vegar um að ræða Horn II slhf. sem er 8,5 milljarðar króna að stærð og fjárfestir í öllum geirum íslensks atvinnulífs og hins vegar ferðasjóðurinn Landsbréf - ITF I slhf. sem er rúmlega 2 milljarðar króna að stærð, en hann sérhæfir sig í framtaksfjárfestingum í ferðaþjónustu, einkum nýrri afþreyingu fyrir ferðamenn.  Í lok ársins 2013 voru eignir í stýringu hjá Landsbréfum tengdar framtaksfjárfestingum alls 43,5 milljarðar króna. Nýjar eignir í stýringu námu um 10,6 milljörðum króna.

Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Landsbréfa:
„Rekstur Landsbréfa gekk vel á árinu 2013 og hafa sjóðir félagsins skilað góðum árangri fyrir fjárfesta. Árið einkenndist af miklum vexti og þróun nýrra afurða og má sem dæmi um slíkt nefna að á haustmánuðum voru kauphallarsjóðirnir Landsbréf – LEQ og Landsbréf – LREAL teknir til viðskipta í Kauphöllinni. Kauphallarsjóðir hafa notið vaxandi vinsælda erlendis og má gera ráð fyrir að þróunin verði á sama veg hér á landi. Þá fengu Landsbréf góða viðurkenningu um mitt ár þegar Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta valdi Landsbréf sem einn þriggja aðila til að stýra eignum sjóðsins. Landsbréf leggja mikla áherslu á góða stjórnarhætti og á árinu var ráðist í úttekt á stjórnarháttum félagsins sem lauk með því að Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands veitti Landsbréfum í lok ársins viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.  Landsbréf hafa markað sér sess sem vaxandi rekstrarfélag á íslenskum fjármálamarkaði en félagið leitast við að vera hreyfiafl í íslensku samfélagi sem með virkri eignastýringu brúar bilið á milli sparnaðar og fjármögnunar á öllum stigum íslensks atvinnulífs.“

Landsbréf - ársreikningur 2013 (PDF)

Fréttasafn