18.10.2013 10:03

Unnið að stofnun sprotasjóðs

Landsbréf vinna nú að stofnun sjóðs sem ætlað er stórt hlutverk í nýsköpunarverkefnum hérlendis á næstu árum. Sjóðurinn hefur fengið nafnið Landsbréf Brunnur I og mun fjárfesta í sprotafyrirtækjum og nýsköpun í ýmsum atvinnugreinum, allt frá frumstigi fyrirtækja til þeirra sem komin eru lengra og teljast vænleg til vaxtar bæði hér á landi og erlendis.

Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Landsbréfa, segir að með stofnun sjóðsins vilji Landsbréf taka þátt í að byggja upp öflug fyrirtæki sem ekki aðeins skili góðri ávöxtun til eigenda, heldur hafi góð áhrif á það samfélag sem þau starfa í. „Við teljum að á Íslandi sé ekki nægjanlega sterk hefð fyrir því að framtakssjóðir fjárfesti í fyrirtækjum á uppbyggingarstigi þeirra og viljum með þessu frumkvæði okkar breyta þeirri stöðu.  Við verðum að hlúa vel að góðum viðskiptahugmyndum og tryggja þeim aðgang að fjármagni á öllum stigum.“

Helgi Júlíusson sjóðstjóri segir að fyrst og fremst muni Brunnur I fjárfesta á Íslandi en heimilt sé að fjárfesta erlendis að því marki sem nauðsynlegt verður vegna sóknar fyrirtækja í eigu sjóðsins á erlenda markaði. Hann segir að sjóðurinn muni leggja áherslu á fjárfestingar þar sem líkur eru á miklum vexti fremur en sérhæfingu í tilteknum atvinnugreinum. „Brunnur I á að gegna mikilvægu hlutverki við að miðla fjármagni inn í sprotafyrirtæki og teljum að sú hugsun falli vel að annarri starfsemi Landsbréfa.“

 

Fréttasafn