20.09.2013 14:11

Ferðaþjónustusjóður fjárfestir í tveimur stórum verkefnum

Icelandic Tourism Fund, framtakssjóður í eigu Icelandair Group, Landsbankans og nokkurra lífeyrissjóða, hefur fjárfest í tveimur stórum verkefnum í afþreyingu fyrir ferðamenn. Fjallað er um fjárfestingar sjóðsins á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Ítarlega er gerð grein fyrir fjárfestingum Icelandic Tourism Fund (ITF I) í Fréttablaðinu í dag og rætt við Helga Júlíusson sjóðstjóra. Fram kemur að sjóðurinn hafi fjárfest í tveimur stórum verkefnum í ferðaþjónustu; hestamiðstöð í Ölfusi og ísgöngum í Langjökli.

Í umfjöllun Fréttablaðsins segir:

„Helgi Júlíusson sjóðstjóri segir að sjóðurinn hafi verið stofnaður á vordögum og hafi það að markmiði að auka fjölbreytileika og styrkja ferðaþjónustu á Íslandi. Sjóðurinn mun fjárfesta í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og verður megináherslan á heilsársverkefni, þar sem slík verkefni stuðla að betri nýtingu á innviðum ferðaþjónustunnar yfir vetrartímann.

Áhersla er lögð á færri en stærri verkefni en hámarksstærð einstakrar fjárfestingar nemur 20 prósentum af áskriftarloforðum sjóðsins. Aðstandendur sjóðsins sjá fyrir sér að fjárfesta í fimm til tíu verkefnum, en fjárfestingargetan er 2,1 milljarður króna.

Ísgöng og hestamiðstöð fyrstu skref

Frá stofnun hefur tíminn verið nýttur til að skoða fjárfestingartækifæri, að sögn Helga. "Þegar hefur verið tekin ákvörðun um fjárfestingu í tveimur verkefnum, en fjölmörg önnur áhugaverð verkefni eru til skoðunar, þó að vinna við þau sé mislangt á veg komin. Bæði kemur til greina að koma að verkefnum sem enn eru á hugmyndastigi og fjárfesta í minni fyrirtækjum sem við teljum hafa burði til að vaxa og dafna."

Spurður hvort sjóðurinn sé nýmæli í fjárfestingum í ferðaþjónustunni segir Helgi það ekki fjarri lagi. "Ég held að þetta sé eini sjóðurinn sem gefur sig út fyrir að fjárfesta í ferðaþjónustunni eingöngu. Á sama tíma er umtalað að það vanti fjárfestingu í ferðaþjónustu til að mæta þeim aukna fjölda ferðamanna sem hingað kemur. Það er því nokkuð sérstakt að fleiri séu ekki að einbeita sér að fjárfestingu sem þessari," segir Helgi og tekur fram að vissulega séu margir að fjárfesta í hótelbyggingum, bílaleigum og fleiru. "En það er annað og fellur ekki undir fjárfestingarstefnu sjóðsins.""

Fréttasafn