08.08.2013 15:01

Kauphallarsjóðir koma á íslenskan verðbréfamarkað

NASDAQ OMX kauphöllin á Íslandi tilkynnti fyrr í sumar að hún hefði ákveðið að taka upp sex nýjar skuldabréfavísitölur á íslenska markaðnum.  Sú ákvörðun skapar grundvöll  fyrir starfrækslu íslenskra kauphallarsjóða (e. Exchange Traded Funds ETFs), sem eru verðbréfasjóðir sem skráðir eru í kauphöll og fara viðskipti með hlutdeildarskírteini þeirra aðallega fram þar. Kauphallarsjóðir sameina að mörgu leyti kosti skráðra verðbréfa og sjóða.

Mikill vöxtur kauphallarsjóða

Kauphallarsjóðum hefur fjölgað mjög og þeir stækkað mikið að umfangi frá því að fyrsti  sjóðurinn af þessu tagi  var stofnaður í  Bandaríkjunum árið 1993. Í upphafi ársins 2013 var stærð kauphallarsjóða í heiminum um 2.000 milljarðar Bandaríkjadala, þar af um 70% í Bandaríkjunum. Fjöldi kauphallarsjóða í Bandaríkjunum var tæplega  1500 um síðustu áramót og hefur árlegur vöxtur stærðar kauphallarsjóða í heiminum undanfarinn áratug  verið tæp 30%.

Sem dæmi um mikið umfang kauphallarsjóða má nefna að árið 2012 voru 16% viðskipta í Kauphöllinni í New York (NYSE) viðskipti með hlutdeildarskírteini kauphallarsjóða. Velta með kauphallarsjóði er nú 24,5% af hlutabréfaveltu í Bandaríkjunum og 8% í Evrópu. Þeir eru 9% af stærð allra verðbréfasjóða í Bandaríkjunum og 3% í Evrópu.

Kauphallarsjóðir eru til í mörgum eignaflokkum svo sem skuldabréfum, hlutabréfum, hrávöru o.fl.  Oftast eru þeir vísitölusjóðir þ.e. þeir fylgja eignasamsetningu þekktrar vísitölu líkt og þeim sem NASDAQ OMX Ísland  hefur nýlega tekið upp.  

Kostir kauphallarsjóða

Kostir kauphallarsjóða felast ekki hvað síst í því að þeir bjóða fjárfestum auðvelda leið til að kaupa hlutdeild í dreifðu eignasafni með einni aðgerð og hafa þeir yfirleitt mikinn seljanleika. Umsýsluþóknun sjóðanna er almennt lág þar sem umgjörð þeirra lágmarkar rekstrarkostnað. Algert gegnsæi er í eignasamsetningu flestra kauphallarsjóða enda fylgja þeir opinberum vísitölum og í stærri kauphallarsjóðum getur verðbilið jafnvel verið minna en meðaltal verðbils undirliggjandi eigna sjóðsins. 

Kauphallasjóðir eru því að mörgu leyti spennandi valkostur fyrir íslenska fjárfesta og eiga vel heima á íslenskum verðbréfamarkaði rétt eins og á öðrum verðbréfamörkuðum. Miðað við íslenska löggjöf getur verið skattalegt hagræði fyrir einstaklinga af eign í kauphallarsjóðum umfram beina stöðu í undirliggjandi verðbréfasafni.  Samfelld viðskipti og gengi eru með hlutdeildarskírteini meðan kauphöll er opin í stað eins dagslokagengis. Kauphallarsjóðir geta því sameinað í einni vöru mikið notagildi og lágan kostnað.

Kauphallarsjóðir ættu að geta hentað flestum hópum fjárfesta en kostir þeirra nýtast með ólíkum hætti eftir því hver á í hlut hverju sinni.  Þannig gæti seljanleiki og samfelld verðmyndun hentað skammtímafjárfestum vel á meðan lágur kostnaður og gagnsæi í eignasamsetningu gæti hentað langtímafjárfestum betur.

Landsbréf LEQ ryður brautina

Í dag eru kauphallarsjóðir ekki í boði á innlendum verðbréfamarkaði, en breyting verður á því nú í ágúst.  Nýr kauphallarsjóður, Landsbréf LEQ, verður tekinn til viðskipta á NASDAQ OMX á Íslandi síðar í þessum mánuði og gefst íslenskum fjárfestum þar með tækifæri til að eiga viðskipti með hlutdeildarskírteini í slíkum sjóði.  LEQ er hlutabréfasjóður sem endurspeglar OMXI6 cap-vísitöluna sem NASDAQ OMX Ísland reiknar og birtir.  Inni í vísitölunni eru þau hlutabréf sem hafa besta verðmyndun samkvæmt reglum vísitölunnar.  Fram að áramótum eru það hlutabréf í Marel, Icelandair, Högum, Eimskip, TM og VÍS sem mynda samsetningu vísitölunnar og LEQ sjóðsins. Viðskiptavakt verður með hlutdeildarskírteinin í Kauphöllinni og verður seljanleikinn því töluvert mikill. Fjárfestar munu einnig geta nálgast lifandi innra virði sjóðsins á heimasíðu Landsbréfa á meðan opið er fyrir viðskipti með sjóðinn í Kauphöllinni.

Með frekari uppbyggingu og þróun á íslenskum verðbréfamarkaði eftir hrun eru líkur á að kauphallarsjóðir muni ryðja sér enn frekar til rúms hér á landi, líkt og raunin hefur verið á erlendum mörkuðum á undanförnum árum og ætla Landsbréf sér að vera í fararbroddi í þeirri uppbyggingu.

 

Fréttasafn