30.04.2013 15:31

Landsbréf setja á stofn 8,5 milljarða króna framtakssjóð

Landsbréf hafa lokið fjármögnun á nýjum framtakssjóði, Horni II slhf. Hluthafar eru um 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. Stærð Horns II er ríflega 8,5 milljarðar króna sem þýðir að félagið hefur mjög mikla fjárfestingagetu og ætti að geta látið mikið að sér kveða í íslensku atvinnulífi næstu árin.

Unnið hefur verið að stofnun og fjármögnun Horns II í um sex mánuði. Yfirlýst stefna Horns II er að fjárfesta í óskráðum félögum með trausta og velþekkta rekstrarsögu og mun sjóðurinn ásamt því að fjárfesta sjálfur í fyrirtækjum, einnig bjóða eigendum sínum að taka beinan þátt í stærri fjárfestingum þegar við á.

Landsbréf stofnaði Horn II í október á síðasta ári og er gert ráð fyrir að hluthafar þess félags muni meðal annars njóta forgangs að eignum Horns fjárfestingafélags hf., dótturfélags Landsbankans, en í september á síðasta ári tóku Landsbréf yfir rekstur og stýringu eigna Horns fjárfestingafélags.

Áætlað fjárfestingartímabil Horns II er til loka árs 2015 og áætlaður líftími til ársins 2018. Lögð hefur verið sérstök áhersla á skýra útgönguáætlun í fjárfestingum og er meðal annars horft til skráningar þeirra félaga í Kauphöll sem Horn II fjárfestir í.

Framkvæmdastjórar Horns II eru þeir Hermann Már Þórisson og Steinar Helgason, en þeir hafa stýrt Horni fjárfestingarfélagi hf. frá árinu 2009. Í fjárfestingaráði Horns II sitja Finnur Reyr Stefánsson, Friðrik Nikulásson, Halldór Kristinsson, Jón Otti Jónsson og Þórður Pálsson.

Fyrsta verkefnið sem býður fjárfestingaráðs Horns II er fjárfesting í Hvatningu, stærsta eiganda Bláa lónsins. Önnur verkefni eru mislangt á veg komin en stjórnendur segja ljóst að ekki sé hörgull á verkefnum og þegar hafi mikið verið leitað til félagsins um fjárfestingar.

Fréttasafn