21.02.2013 14:31

Ársuppgjör Landsbréfa hf

Stjórn Landsbréfa hf., sem er rekstrarfélag verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða, hefur staðfest ársreikning félagsins fyrir árið 2012.  Í árslok 2012 önnuðust Landsbréf hf. rekstur 20 sjóða um sameiginlega fjárfestingu og nam heildarstærð sjóða í rekstri Landsbréfa ásamt eignum í stýringu 82,2 milljörðum. Landsbréf keyptu á árinu 2012 allan sjóðarekstur Landsvaka, en bæði félögin eru dótturfélög Landsbankans.

Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 7 milljónum króna fyrir árið 2012.  Eigið fé Landsbréfa í árslok nam 686 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi.  Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 78,68% en þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8,0% samkvæmt lögum.

Landsbréf bjóða mjög fjölbreytt úrval sjóða. Skuldabréfasjóðir Landsbréfa  skiluðu góðri ávöxtun á árinu og var til að mynda sjóðurinn Landsbréf – Sparibréf löng með hæstu ávöxtun allra ríkistryggðra sjóða á Íslandi eða 6,3%. Aðrir skuldabréfasjóðir gáfu einnig góða ávöxtun í samanburði við sambærilegra sjóði hjá samkeppnisaðilum. Innflæði í skuldabréfasjóði félagsins var nokkuð á árinu og stækkuðu þeir um 16%.

Hlutabréfasjóðir Landsbréfa stækkuðu á árinu og stækkaði sjóðurinn Landsbréf - Úrvalsbréf til dæmis um 94% prósent. Í lok árs nam hann 6,1 milljarði króna. Landsbréf stofnuðu fjárfestingasjóðinn Landsbréf - Öndvegisbréf undir lok ársins og var hann orðinn 1,3 milljarðar að stærð við árslok.

Erlendir hlutabréfamarkaðir skiluðu almennt góðri ávöxtun á árinu 2012 og var verðbréfasjóðurinn Landsbréf – Nordic 40 sá íslenski verðbréfa- eða fjárfestingasjóður sem sýndi besta ávöxtun á árinu 2012 eða 28,3 prósent í ISK.  Sá sjóður er vísitölusjóður og fjárfestir eins og nafnið gefur til kynna í hlutabréfum í norrænu vísitölunni N40.

Á árinu var mörkuð sú stefna að leggja aukna áherslu á sérhæfðar fjárfestingar og seinni hluta ársins 2012 var unnið að þróun ýmissa verkefna á því sviði. Gert er ráð fyrir að nokkur þeirra verði kynnt sérstaklega á næstu vikum. Úrvinnsla á eignasafni Horns Fjárfestingarfélags hf. er hluti af þessum verkefnum. Eignir í stýringu hjá sérhæfðum fjárfestingum voru í árslok alls 29,4 milljarðar króna.

Fréttasafn