19.09.2012 15:52

Landsbréf hf. taka við rekstri og stýringu eigna Horns Fjárfestingafélags hf.

Fjármálaeftirlitið veitti Landsbréfum hf. 11. september sl. leyfi til eignastýringar. Leyfið gefur Landsbréfum tækifæri til að annast verkefni á sviði stýringar eigna fyrir þriðja aðila og eykur því verulega möguleika félagsins á að þjóna viðskiptavinum sínum.

Í kjölfarið hefur verið skrifað undir samning milli Landsbréfa hf. og Horns Fjárfestingafélags hf. sem bæði eru dótturfélög Landsbankans hf., um að Landsbréf taki yfir rekstur og stýringu eigna Horns.

Þetta er í fullu samræmi við þær áætlanir sem kynntar voru af hálfu Landsbankans í maí á þessu ári, þar sem því var lýst yfir að eignasafn Horns yrði fært til Landsbréfa, með það að markmiði að koma á fót einu öflugasta rekstrarfélagi landsins á sviði eigna- og sjóðastýringar.

Í kjölfarið hafa allir starfsmenn Horns gengið til liðs við Landsbréf hf. sem hefur nú á að skipa 15 manna öflugu liði sérfræðinga í stýringu eigna. Þessar breytingar hafa einnig í för með sér töluverða aukningu á eignum í stýringu hjá Landsbréfum hf. og er félagið nú í einstakri stöðu til að breikka vöruúrval sitt og bjóða viðskiptavinum sínum öflugar lausnir á sviði eignastýringar.

Fréttasafn