12.09.2012 15:29

Fjármálaeftirlitið veitir Landsbréfum leyfi til eignastýringar

Þann 11. september veitti Fjármálaeftirlitið Landsbréfum hf. sem er rekstrarfélag verðbréfasjóða, leyfi til eignastýringar. Leyfið veitir Landsbréfum sem er dótturfélag Landsbankans, tækifæri til að annast verkefni á sviði stýringar eigna fyrir þriðja aðila, hvort sem um er að ræða félög eða einstaklinga og eykur því verulega möguleika félagsins til að þjóna viðskiptavinum sínum.

Leyfið er veitt að undangenginni yfirferð FME á gögnum Landsbréfa hf. sem fylgdu umsókn félagsins.

Starfsleyfi Landsbréfa hf. tekur því nú til eignastýringar og fjárfestingarráðgjafar skv. 1. og 2. tl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 191/2002 um fjármálafyrirtæki auk reksturs verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu skv. 7. tl. 1. mgr. 3. gr.

Um Landsbréf hf.

Rekstrarfélagið Landsbréf hf. er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem rekur verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Félagið starfar sem rekstrarfélag samkvæmt starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu.

Fréttasafn