11.06.2012 14:56

Sigþór Jónsson ráðinn framkvæmdastjóri Landsbréfa hf.

Stjórn Landsbréfa hf., dótturfélags Landsbankans, hefur ráðið Sigþór Jónsson sem framkvæmdastjóra félagsins.

Sigþór Jónsson hefur mikla reynslu af íslenskum fjármálamarkaði og fjárfestingastarfsemi. Hann hefur undanfarið gegnt starfi forstöðumanns sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni hf. og meðal annars leitt uppbyggingu framtakssjóða Stefnis hf. í atvinnuhúsnæði og fyrirtækjum. Þar má helst nefna fjárfestingar í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Högum hf.

Sigþór er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í löggildri verðbréfamiðlun.

Sigþór tekur við starfi framkvæmdastjóra Landsbréfa hf. þegar fyrirtækið stendur á tímamótum. Honum er ætlað að leiða frekari uppbyggingu þess, viðskiptaþróun og markaðssókn í kjölfar þess að ákvörðun var tekin um að Landsbréf hf. tækju yfir rekstur Horns, fjárfestingarfélags hf.

Jón Steindór Valdimarsson, formaður stjórnar Landsbréfa hf.: „Það er mikill styrkur fyrir Landsbréf að fá Sigþór Jónsson til þess að leiða fyrirtækið. Hann hefur mikla reynslu á starfssviði félagsins og er réttur maður til að virkja þann kraft sem býr í félaginu og starfsfólki þess svo hægt verði að nýta sem best þau sóknarfæri sem framundan eru.“

Fréttasafn