11.05.2012 16:25

Landsbankinn eflir starfsemi Landsbréfa hf. með færslu eignasafns Horns hf. til félagsins

Landsbankinn hefur ákveðið að efla og breikka starfsemi dótturfélagsins Landsbréfa hf. með því að færa eignasafn Horns hf., sem einnig er dótturfélag bankans, til Landsbréfa.

Markmið bankans með þessu er að koma á fót einu öflugasta rekstrarfélagi landsins á sviði eigna- og sjóðastýringar og skapa um leið tækifæri til samþættingar á starfsemi þessara fyrirtækja og hagræða í rekstri þeirra. 

Með þessari breytingu hefur endanlega verið fallið frá skráningu Horns hf. á markað. Starfsmenn Horns hf. verða starfsmenn Landsbréfa hf.

Gerðar verða breytingar á núverandi eignasafni Horns og myndaður sjóður undir merkjum Landsbréfa sem síðan verður auglýstur og boðinn fagfjárfestum til kaups. Þetta mun fjölga til muna fjárfestingarmöguleikum á markaði og styður jafnframt við þá stefnu bankans að losa um eignir í óskyldum rekstri.

Þetta hefur í för með sér töluverðar breytingar á starfsemi Landsbréfa og stjórn félagsins hefur ákveðið af þessu tilefni að rétt sé að auglýsa lausa til umsóknar stöðu framkvæmdastjóra Landsbréfa hf.

Gerðar hafa verið breytingar á stjórn Landsbréfa og fjölgað í henni úr þremur í fimm. Jón Steindór Valdimarsson er stjórnarformaður en aðrir eru þau Hanna Björg Hauksdóttir, Kristinn Ingi Lárusson, Sigurbjörn Jón Gunnarsson og Ragnhildur Geirsdóttir.

Jón Steindór Valdimarsson, formaður stjórnar Landsbréfa segir: „Með því að ná saman öflugum hópi starfsmanna Landsbréfa og Horns og með sterku eignasafni Horns, teljum við að félagið eflist verulega. Landsbréf geta nú boðið fjárfestum breiðara úrval sjóða en áður og þannig þjónað hagsmunum þeirra betur."

Ari Skúlason fráfarandi framkvæmdastjóri Landsbréfa segir: „Nú er komið að tímamótum í sögu Landsbréfa. Ég tók að mér að leiða forvera þess, Landsvaka, á erfiðum tímum strax eftir hrun. Markmiðið var að koma starfseminni í rétt horf á nýjan leik og lokaáfangi þeirrar leiðar var flutningur sjóða Landsvaka yfir í Landsbréf. Ég tel því rétt að nú taki annar maður við stjórnartaumunum og leiði félagið áfram."

Fréttasafn